1. Inngangur.
Viðskiptaskilmálar þessir eru almennir viðskiptaskilmálar Netkennslu NTV og þeir gilda fyrir allar afurðir og alla þjónustu sem fyrirtækið veitir einstaklingum, félögum, lögaðilum, opinberum stofnunum og öðrum, hvort heldur sem er gegn greiðslu eða án endurgjalds.
2. Skilgreiningar.
Áskrifandi er sá sem greiðir fyrir aðgengi að Netkennslu NTV og hefur bæði kynnt sér og samþykkt þessa skilmála.
Netkennsla NTV. Eigandi og ábyrgðaraðili þjónustunnar er Netkennsla NTV ehf., kennitala 610716-1050, Hlíðasmára 9, 201 Kópavogi.
Notandi er sá einstaklingur, lögaðili, félag eða opinber stofnun, sem Netkennsla NTV veitir aðgengi að kennsluefni sínu og skráður er í notenda- eða viðskiptamannagrunni félagsins.
Mánaðaráskrift. Gjald sem áskrifandi greiðir mánaðarlega fyrir aðgengi að námsefni á Netkennslu NTV.
Ársáskrift. Gjald sem áskrifandi greiðir fyrirfram fyrir 12 mánaða aðgengi að námsefni á Netkennslu NTV (heilt ár).
3. Endurgreiðslur.
Endurgreiðsla getur aðeins orðið vegna alvarlegra hnökra á þjónustu af hálfu Netkennslu NTV. Stöðvist þjónustan vegna tæknilegra bilana sem eiga uppruna sinn hjá Netkennslu NTV og eru á ábyrgð þess yfir tímabil sem nemur meira en tíu sólarhringum yfir árið og meira en þremur sólarhringum í röð, er slíkt skilgreint sem „alvarlegir hnökrar“ á þjónustunni. Við svo búið getur viðskiptamaður krafist endurgreiðslu á þeim hluta fyrirframgreiðslunnar sem eftir lifir samningstímans.
4. Gildissvið.
Skilmálar þessir gilda fyrir alla áskrifendur Netkennslu NTV.
5. Gildistími og uppsagnarákvæði.
5.1. Uppsögn á mánaðaráskrift. Ef áskrifandi kaupir mánaðaráskrift, getur hann sagt upp áskriftinni hvenær sem er. Ef hann segir upp áskriftinni fyrir 15. dag hvers mánaðar þá tekur uppsögnin gildi frá og með næstu mánaðarmótum. Ef uppsögnin berst 15. dag mánaðar eða síðar í mánuðinum þá mun uppsögnin taka gildi þarnæstu mánaðarmót. Meðaluppsagnarfrestur er því um 30 dagar. Aðgengi áskrifandans er opið þar til uppsögnin tekur gildi, en á þeim degi sem uppsögn tekur gildi mun aðgangur áskrifanda að Netkennslu NTV vera gerður óvirkur.
5.2. Uppsögn á ársáskrift. Ársáskrift veitir áskrifanda töluverðan afslátt af mánaðaráskrift og á móti gilda mun stífari reglur um uppsögn. Ef áskrifandi kaupir ársáskrift, þá getur viðkomandi sagt upp áskriftinni en sú uppsögn tekur ekki gildi fyrr en ár er liðið frá kaupum, enda áskriftin greidd fyrirfram gegn afslætti. Ef áskrifandi segir ekki upp áskriftinni fyrir 15. dag þrettánda mánaðar, tveimur vikum eftir að árið er liðið, þá endurnýjast ársáskriftin sjálfkrafa. Aðgengi áskrifandans er opið þar til uppsögnin tekur gildi, en á þeim degi sem uppsögn tekur gildi mun aðgangur áskrifanda að Netkennslu NTV vera gerður óvirkur.
6. Færsluhirðing af debet- og kreditkortum
DalPay Retail er endursöluaðili fyrir Nýja tölvu- og viðskiptaskólann ehf (NTV) og á kreditkortayfirliti þínu mun standa dalpay.is +354 412 2600
7. Framsal áskriftaréttinda.
Áskrifandi getur ekki framselt réttindi sín um aðgengi að kennsluefni Netkennslu NTV án skriflegs samþykkis frá Netkennslu NTV.
8. Breytingar og viðbætur.
Netkennsla NTV áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálum þessum að undangenginni tilkynningu þar um á vef Netkennslu NTV. Hafni áskrifandi breytingunni er honum heimilt að rifta gildandi samningi með tveggja vikna fyrirvara.
9. Eignarhald og höfundarréttur.
Áskrifandi samþykkir og viðurkennir að allt kennsluefni og framsetning þess er í eigu Netkennslu NTV. Hann lofar að virða lög um vörumerki og höfundarrétt í hvívetna. Afritun eða augljós eftirlíking á útliti, framsetningu og samsetningu á efni Netkennslu NTV veldur tafarlausri uppsögn á samningi þessum, án endurgreiðslu, auk lögsóknar af hálfu Netkennslu NTV ef tilefni þykir til. Allur réttur áskilinn.
Netkennslu NTV er heimilt að framselja höfundar- og eignarréttinn til þriðja aðila án tilkynninga þar um til viðskiptamanns.
10. Force Majeure – Óviðráðanleg atvik.
Netkennsla NTV er laus undan öllum kröfum um þjónustu í tilfelli náttúruhamfara og annarra ófyrirsjáanlegra atburða (force majeure) meðan á þeim stendur.
Viðskiptamaður á ekki rétt á endurgreiðslu, eða öðrum skaðabótum í tilfelli náttúruhamfara, eða annarra óviðráðanlegra og/eða ófyrirsjáanlegra atburða (force majeure) sem koma í veg fyrir að Netkennsla NTV geti uppfyllt skyldur sínar gagnvart áskrifenda samkvæmt skilmálum þessum.
11. Dómstóll.
Sækja skal mál gegn Netkennslu NTV fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
F.h. Netkennslu NTV
Skúli Gunnsteinsson, framkvæmdastjóri.
1. mars 2017.